Sýnataka á Húsavík

Í dag þurfti ég að skella mér óvænt til Húsavíkur. Sá sem sér um vikulegar sýnatökur er í sumarfríi núna, sem er nú venjulega ekkert mál, en út af jarðskjálftunum í Bárðarbungu síðustu daga mátum við það svo að ég yrði að ná sýni núna svo að ekki myndaðist gat í gagnaröðinni.

Mynd sem sýnir skjálfta á bilinu M 5,1-5,7 sem urðu í Bárðarbungu fyrir 26. ágúst 2014 og mögulegt áhrifasvæði þeirra út frá formúlu um varanlegar vatnsborðs breytingar í kjölfar jarðskjálfta.
Mynd sem sýnir skjálfta á bilinu M 5,1-5,7 sem urðu í Bárðarbungu fyrir 26. ágúst 2014 og mögulegt áhrifasvæði þeirra út frá formúlu um varanlegar vatnsborðs breytingar í kjölfar jarðskjálfta.

Til er formúla sem segir að fyrir ákveðna stærð jarðskjálfa megi gera ráð fyrir varanlegum breytingum á grunnvatni í tiltekinni fjarlægð frá jarðskjálftanum (Wang & Manga, 2010). Þegar jarðhræringarnar í Bárðarbungu byrjuðu þá reiknaði ég það út hversu stórir þeir þyrftu að vera til að þeir myndu, mögulega, ná inn á svæðið þar sem efnamælingarnar okkar eru. Á myndinni hér til hliðar er ég búin að reikna út áhrifasvæði skjálfta > M 5 sem urðu í Bárðarbungu fyrir 26. ágúst 2014. Þar sést að áhrifa skjálfta af stærðinni M 5,3 gæti gætt í borholunni við Hafralækjarskóla HA-01. Skjálfti af stærðinni M 5,7 hefur enn stærra áhrifasvæði og gætu sést breytingar alla leið til Grímseyjar eða jafnvel upp á Hellisheiði.

Því er mjög mikilvægt fyrir okkur núna að sýnatökurnar séu í lagi svo það sé hægt að skoða hvort við sjáum einhver áhrif af þessum skjálftum í efnafræði vatnsins á sýnatökustöðunum okkar.