TFZ
Tjörnes brotabeltið. Mynd tekin úr greininni Infrastructure and evolution of ocean-ridge discontinuities in Iceland. Höfundarréttur Ágúst Guðmundsson.

Meistaraverkefnið mitt við jarðfræðideild Stokkhólmsháskóla snýst um að hanna net mælistöðva í kringum Tjörnes brotabeltið (TFZ) sem fylgjast í rauntíma með eðlis- og efnabreytingum í borholuvatni í tengslum við jarðskjálfta. 

Frá árinu 2002 hefur Stokkhólmsháskóli tekið vatnssýni vikulega úr borholunni á Húsavíkurhöfða og greint þau á rannsóknarstofu sinni í Svíþjóð. Í doktorsritgerð árið 2004 er líst efnabreytingum sem komu fram allt upp í um 10 vikum fyrir jarðskjálfta á svæðinu. Árið 2008 hófust svo vikulegar vatnssýnatökur úr borholunni við Hafralækjarskóla sem er um 20 km fyrir sunnan Húsavík. Haustið 2012 og vorið 2013 sáust efnabreytingar á vatninu þar um 4-6 mánuðum fyrir jarðskjálfta sem voru á Tjörnes brotabeltinu. Efnin sem breyttust voru ekki þau sömu og á Húsavíkurhöfða enda er vatnið á þessum tveim stöðum gjörólíkt. Ekki er enn vitað af hverju þessar breytingar verða og sú pæling ekki hluti af meistaraverkefninu mínu.

Gallinn við mælingarnar hjá Stokkhólmsháskóla er að sýnatökurnar eru gerðar handvirkt, svo þarf að senda sýnin til Svíþjóðar og loks mæla þau þar. Oft er talsverðu að sýnum safnað saman áður en þau eru send út og mæld. Því eru ekki um rauntíma mælingar að ræða heldur eru mælingarnar bornar saman við skjálfta sem hafa orðið á svæðinu. Ekki er því hægt að nota þetta kerfi til að spá fyrir um jarðskjálfta.

Meginþátturinn í mínu verkefni er að skoða hvaða þætti er hægt að mæla í rauntíma.

Annað sem vitað er að getur breyst fyrir jarðskjálfta er vatnshæð í borholum. Þeir mælar sem við erum núna að skoða að setja ofan í borholur eru því; vatnshæðarmælar, hitamælar og leiðnimælar. Mælistöðvarnar verða svo tengdar inn í jarðskjálfaeftirlistkerfi Veðurstofu Íslands. Svæðið sem ég er að skoða nær frá Skagafirði og austur á Langanes.

Orkustofnun heldur úti gagnagrunni yfir allar borholur á landinu. Með hjálp hans sé ég að það eru yfir 7000 borholur sem koma til greina til að nota í verkefninu. Flestar þeirra voru boraðar í tenglsum við hitaveituvæðinguna og eru á lághitasvæðum. Aðal parturinn í verkefninu mínu felur í sér að skoða mögulegar staðsetningar á mælum og velja viðeigandi tækjabúnað fyrir hvern stað fyrir sig. Ég er nú þegar búin að fara og hitta forsvarsmenn flestra vatnsveita á svæðinu og eru allir til í að vinna með okkur í þessu verkefni. Er ég búin að skoða fjölmargar borholur og skrá niður aðstæður á hverjum stað s.s. aðgang að rafmagni og samgöngur.

Áætlað er að verkefninu ljúki með meistararitgerð en stóra verkefnið mun halda áfram og vonandi mun ég áfram verða partur af því.