Frétt á RÚV og hjá Orkuveitu Húsavíkur

Í dag kom umfjöllun um verkefnið mitt í útvarpsfréttum kl. 11:00 og einnig á vef RÚV. Fréttin var tekin af vef Orkuveitu Húsavíkur og hljóðar hún þar svona:

Við holuna á Húsavíkurhöfða

Nú í sumar munu mælar verða settir við borholuna á Húsavíkurhöfða í tengslum við rannsókn á efnabreytingum í vatni fyrir jarðskjálfta. Helga Rakel Guðrúnardóttir, meistaranemi við Háskólann á Akureyri og Stokkhólmsháskóla, mun sjá um uppsetninguna og tengingu við jarðskjálftaeftirlitskerfi Veðurstofu Íslands en fyrsti hluti verkefnisins mun taka um tvö ár.

Stokkhólmsháskóli hefur síðan 2002, í samvinnu við Orkuveitu Húsavíkur, tekið sýni vikulega úr borholunni og er því til mikið gagnasafn um breytingar á efnasamsetningunni. Sést hafa breytingar á tilteknum efnum allt að tveimur vikum fyrir jarðskjálfta. Von er bundin við að með þessum rannsóknum sé hægt að þróa sjálfvirkt kerfi til að spá fyrir um jarðskjálfta með því að fylgjast með efnabreytingum í vatni.

Samhliða mælingunum á Húsavíkurhöfða eru gerðar mælingar í borholunni við Hafralækjaskóla.