Ferð með sænskum jarðfræðinemum

Húsavíkur – Flateyar misgegnið séð frá Þeystareykjum

Undanfarna daga hef ég verið á ferðalagi með sænskum hópi af nemendum sem eru að læra um jarðskjálfta á kvöldnámskeiði hjá Stokkhólmsháskóla. Partur af námskeiðinu er fjögra daga ferð um norðausturhluta Íslands. Þar á meðal fórum við að Dettifossi, Kröflu og upp á Þeystareyki þar sem við sáum hvar Húsavíkur – Flateyjar misgengið mætir rekbeltinu.

Einnig var farið til Húsavíkur þar sem ég og Niklas Wästeby, doktorsnemi við Stokkhólmsháskóla, sögðum frá rannsóknunum á Húsavíkurhöfða. Með okkur var einnig Alasdair Skelton deildarstjóri jarðfræðideildarinnar og leiðbeinandi okkar beggja við Stokkhólmsháskóla. Verkefnin okkar Niklas tengjast talsvert þar sem við erum að skoða sömu efnabreytingarnar í sama vatninu og tengslin við jarðskjálfta. Áherslan hjá Niklas er hinsvegar að skoða hvernig bergið jafnar sig eftir jarðskjálfta og út frá urðun á geislavirkum úrgangi. Ég er hinsvegar að horfa meira á að gera rannsóknirnar eða gagnasöfnunina sjálfvirka og að við fáum gögnin í rauntíma. Einnig er ég að horfa meira á breytingarnar á efnasamsetningunni í vatninu fyrir jarðskjálfta og þá með það að markmiði að geta þróað kerfi til að spá fyrir um jarðskjálfta.