AutoRadon tæki komið í gang

Þann 6. ágúst 2010 setti ég af stað AutoRadon tæki við borholuna á Húsavíkurhöfða. Tækið er þróað á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands af Páli Theódórssyni. Emil Harðarson, nemi í eðlisfræði, hefur aðstoðað hann við smíði og uppsetningu á tækinu.

Hérna er innslag úr Kastljósinu frá 11. ágúst 2010 þar sem fjallað var um aldursgreiningar sem gerðar eru með næstum samskonar tæki og ég nota við Radon mælingarnar.

Hvað er Radon?

Radon (Rn) er lofttegund og myndast við niðurbrot radíums (Ra). Það er geislavirkt með
helmingunartímann 4,2 daga, en dótturefnin eru föst efni. Í ýmsum nágrannalöndum okkar er hár styrkur radons í grunnvatni vandamál og því er
mæling þess liður í neysluvatnseftirliti. Hér á landi er þetta ekki vandamál vegna þess hversu lítið radíum er í basalti og þar með í berggrunninum. Radon sýni eru þó alltaf tekin þegar heildarúttekt er gerð á neysluvatni.

Jarðskjálftinn á Ítalíu 2009

Þann 6. apríl 2009 varð jarðskjálfti upp á 6,3 við  L’Aquila á Ítalíu. ítalskur vísindamaður, Gioacchino Giuliani, varaði við að jarðskjálfti væri að koma en ekki var hlustað á hann þar sem tímasetningin virtist ekki rétt hjá honum. Hann var einmitt að horfa á Radon þegar hann spáði fyrir um þennan jarðskjálfta. Eftir þetta komust Radonmælingar í tengslum við jarðskjálfta í fjölmiðla. Hérna er linkur í ágæta grein um þetta.

Radon mælingarnar á Húsavíkurhöfða

Hingað til höfum við tekið Radon sýni handvirkt í flöskur og sent suður á Raunvísindastofnun HÍ. Sýnin hafa ekki verið tekin reglulega en þó erum við með tölur bæði frá því síðasta sumar og núna í sumar. Við munum halda áfram með handvirkar sýnatökur núna í vetur til að bera saman við gögnin úr AutoRadon tækinu.

AutoRadon tækið hjá okkur er nú uppsett þannig að það tekur mælingu á hálftíma fresti og vistar niðurstöðurnar á USB minnislykli.  Gögnin eru svo færð u.þ.b. vikulega af minnislyklinum yfir á tölvu og skoðuð. Þegar við erum búin að setja upp græjurnar sem tengjast inn til Veðurstofu Íslands þá ætlum við að skoða það að tengja líka AutoRadon tækið við það kerfi þannig að gögnin fari inn í gagnagrunn strax eftir mælingu.